08. desember. 2004 12:01
Rauði krossinn á Íslandi var stofnaður 10. desember árið 1924 og fagnar því 80 ára afmæli nk. föstudag. Afmælishaldið verður hófstillt í anda hreyfingarinnar, en víða um land hafa deildir félagsins opin hús þar sem starfsemin verður kynnt.
Rauði krossin hér á landi starfar í 51 deild um allt land. Landinu er skipt upp í svæði og sjá svæðisfulltrúar um að aðstoða deildirnar á sínu starfssvæði við hin ýmsu viðfangsefni.
Í tilefni afmælis hreyfingarinnar hér á landi birtist í Skessuhorni sem kemur út í kvöld viðtal við þau Svein Kristinsson, sem er í forsvari fyrir svæðisskrifstofu Rauða krossins á Vesturlandi og Lilju Halldórsdóttur, starfsmann Rauða kross deildarinnar á Akranesi. Þau eru þar spurð um helstu verkefni hreyfingarinnar hér á Vesturlandi og starfsemi deildarinnar á Akranesi sérstaklega, en deildin er sú stærsta í þessum landshluta.