27. desember. 2013 01:01
Jóladægurlögin sem allir þekkja, verða saman komin á glæsilegum jólatónleikum þar sem andi Frank Sinatra og Bing Crosby svífur yfir vötnum, verður á dagskrá jólahátíðar Kalmans listafélags. Hinn stórgóði söngvari, Þór Breiðfjörð verður aðalgestur listafélagsins og með honum koma þeir Kjartan Valdemarsson píanóleikari og Jón Rafnsson kontrabassaleikari. Kór Kalmans verður í stóru hlutverki og fleiri góðir gestir koma í heimsókn. Ingþór Bergmann Þórhallsson verður kynnir og spjallstjórnandi kvöldsins enda er hann einstaklega viðræðugóður eins og Þór Breiðfjörð.
Hólmarinn Þór Breiðfjörð er einn af þessum gullbörkum sem við Íslendingar eigum. Hann var valinn söngvari ársins árið 2012 fyrir hlutverk sitt í Vesalingunum og nú nýverið kom út geisladiskur með honum sem nefnist Á ljúfu kvöldi.
Tónleikarnir fara fram í Bíóhöllinni á Akranesi laugardaginn 28. desember og hefjast klukkan 17:00. Aðgangseyrir er kr. 2.500 en Kalmansvinir greiða 2.000 kr. Forsala er hafin í versluninni Bjargi við Stillholt og í Vinaminni. Einnig er hægt að panta miða með því að senda tölvupóst á kalmanlistafelag@gmail.com
-fréttatilkynning