27. desember. 2013 01:06
Flugeldar eru fastur liður áramótanna hjá Íslendingum og heillar ljósdýrðin einnig æ fleiri erlenda ferðamenn sem koma í auknu mæli til landsins. Slys af völdum flugelda verða um hver áramót. Flest vegna þess að ekki er farið eftir leiðbeiningum um meðhöndlun, hlífðarbúnaður ekki notaður eða verið er að fikta, taka í sundur og búa til sprengjur. Tæp fjögur ár eru síðan ungur maður lést er hann var að búa til rörasprengju sem á ekkert skylt við flugelda annað en púðrið sem úr þeim kemur. Í tilkynningu frá tryggingafélaginu VÍS segir að bruni á höndum og augnáverkar séu algengustu slysin af völdum flugelda. Hitinn sem myndast þegar flugeldar springa getur verið allt að 1.200°C, eða tólffalt suðumark vatns. „Undanfarin ár hefur tekist að fækka þessum slysum. Margt spilar inn í. Regluverkið hefur breyst, flugeldavörurnar orðnar öruggari, notkun hlífðargleraugna almennari og fræðsla um rétta meðhöndlun hefur aukist með áherslu á að ná til unglingsdrengja og foreldra þeirra vegna hættunnar sem fikt leiðir af sér,“ segir í tilkynningu VÍS.
„Miðað við síðustu ár voru óvenju fá flugeldaslys um síðustu áramót. Skugga bar þó á með alvarlegum augnáverka. Halda þarf áfram á sömu braut. Það tekst þó ekki nema allir fari eftir leiðbeiningum og noti flugeldagleraugu ásamt skinn- eða ullarhönskum.
• Flugelda má nota án sérstakra leyfa frá 28. desember til 6. janúar.
• Flugelda á að geyma á þurrum stað og þar sem börn ná ekki til. Ekki er mælt með að geyma þá milli ára.
• Yngri en 12 ára mega ekki kaupa neinar flugeldavörur. 12 til 16 ára mega kaupa vörur sem ekki eru aldurstakmörk á, til dæmis þær sem ætlaðar eru til notkunar innanhúss.
• Lesið vel allar leiðbeiningar sem fylgja flugeldum áður en skotið er upp.
• Lokið gluggum og læsið hurðum áður en farið er út að fagna áramótunum.
• Hlífðargleraugu eiga allir að nota, óháð því hvort þeir skjóta upp eða horfa bara á.
• Hendur þeirra sem skjóta upp eða handleika blys eru best varðar með skinn- eða ullarhönskum.
• Gætið vel að börnum því þau þekkja hætturnar ekki eins vel og fullorðnir.
• Hugið að dýrum í kringum áramótin, þau hræðast gjarnan hljóðin og ljósin.
• Flugeldavörur eru ekki leikföng. Varanlegur heyrnarskaði hefur m.a. orðið vegna hrekkja.
• Áfengi og flugeldar fara aldrei saman. Margir virða þetta ekki og hafa einkum karlmenn slasað sig af þessum sökum.
• Þegar skotið er upp á að geyma aðra flugelda fjarri skotstað. Aldrei má geyma flugeldavörur í vasa.
• Skjótið upp á opnu svæði í a.m.k. 20 m fjarlægð frá húsum, bílum og fólki og látið þá sem fylgjast með standa vindmegin við skotstað.
• Aldrei má kveikja í flugeldum sem haldið er á, það má eingöngu við þar til gerð handblys.
• Rakettur verða að vera í traustri undirstöðu þegar þeim er skotið upp.
• Stöðug undirstaða og mikið rými er nauðsynleg fyrir standblys og skotkökur.
• Aldrei má halla sér yfir vöru þegar kveikt er í. Tendra skal á kveiknum með útréttri hendi og víkja strax frá.
• Ef flugeldur springur ekki skal ekki nálgast hann í nokkrar mínútur þar sem hætta er á að hann rjúki allt í einu upp. Ekki reyna að kveikja aftur í heldur hellið vatni yfir hann.
• Brunasár á að kæla strax með 15-17°C vatni.“