04. janúar. 2014 03:03
Fyrsta barn ársins á Vesturlandi kom í heiminn klukkan 07:08 í morgun, 4. janúar á fæðingadeild sjúkrahússins á Akranesi. Var það 3.275 gramma þung og 49 cm löng stúlka. Foreldrar hennar eru hjónin Álfheiður Ágústsdóttir og Jóhann Steinar Guðmundsson á Akranesi, sem bæði vinna hjá Elkem Ísland á Grundartanga. Jóhann Steinar er fæddur og uppalinn Skagamaður en Álfheiður ólst upp í Grundarfirði. Stúlkan er þriðja barn þeirra hjóna en eldri eru systkinin Guðmundur Már og Elísabet María. Þegar blaðamann bar að garði skömmu eftir hádegi var fjölskyldan öll saman komin í góðu yfirlæti á fæðingadeildinni ásamt Jóhönnu Karlsdóttur föðurömmu stúlkunnar. Stúlkan og móður hennar heilsast prýðilega. Álfheiður sagði fæðinguna hafa gengið vel, en auðvitað eru þetta átök eins og gengur. Eldri systkinin voru að vonum afar ánægð með litlu systur. Það var Jóhanna Ólafsdóttir ljósmóðir á HVE á Akranesi sem tók á móti stúlkunni.