04. janúar. 2014 03:28
Björgunarsveitarmenn af Vesturlandi eru nú að ljúka störfum á slysstað á Kaldadal þar sem jeppi með fimm manns valt eftir hádegið í dag. Fjórir af þeim fimm sem voru í bílnum hlutu skrámur og minniháttar meiðsli. Erlend kona hlaut meiri áverka og er nú á leið í björgunarsveitarbíl niður í Lundarreykjadal þar sem sjúkrabíll bíður og flytur konuna á sjúkrahús. Er hún að sögn upplýsingafulltrúa Landsbjargar meðvitundarlítil en að öðru leyti er ekki nákvæmlega ljóst með hennar áverka. Björgunarsveitarmenn eru að velta við jeppabifreiðinni og verður henni ekið til byggða reynist hún gangfær. Reiknað er með að aðgerðum ljúki á staðnum á næstu 2 - 3 klukkustundum, þ.e. fyrir kvöldið.