06. janúar. 2014 10:01
Þórarinn Eldjárn rithöfundur mun næstkomandi föstudag frumflytja frásögn sína af Baróninum á Hvítarvöllum á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi. Í tilkynningu frá Landnámssetrinu segir um sýninguna og Baróninn:
„Föstudaginn 10. janúar klukkan 20 frumflytur Þórarinn Eldjárn hina mögnuðu sögu Barónsins á Hvítárvöllum. Þórarinn skrifaði skáldsögu um Baróninn og kom hún út fyrir réttum tíu árum, eða 2004. Baróninn, eða Charles Gouldrée-Boilleau eins og hann hét réttu nafni, kom til Íslands árið 1898 með þá staðföstu ákvörðun að ætla að setjast að á Íslandi. Hann sá mikil tækifæri bæði í landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu og lét sig dreyma um stórbrotnar framkvæmdir. Allri veru hans hér á landi lýstu samtímamenn hans með einu orði, þ.e. „ævintýri.“ En það mætti líka kalla það harmleik, vegna sorglegra endaloka þessa dularfulla manns. Þórarinn Eldjárn er meðal okkar merkustu rithöfunda og stígur nú á stokk sem hinn „Talandi höfundur“ og segir okkur söguna sem hann hefur áður unnið á bók.“