08. janúar. 2014 12:01
Landeigendur og aðrir hagsmunaaðilar í Borgarbyggð fjölmenntu á fund sem sveitarfélagið boðaði til vegna kröfugerðar íslenska ríkisins í þjóðlendumálum. Var fundurinn í Ráðhúsinu í Borgarnesi sl. mánudagsmorgun. Þar fór Óðinn Sigþórsson í Einarsnesi yfir kröfugerð ríkisins til þjóðlendna í Mýra- og Borgarfjarðasýslu sem birt var í Lögbirtingablaðinu 18. desember síðastliðinn og í framhaldinu voru næstu skref í málinu rædd, einkum hvernig brugðist verður til varna. Að sögn Páls S. Brynjarssonar sveitarstjóra var um góðan og gagnlegan fund að ræða og taldi hann að flestir ef ekki allir sem hagsmuna eiga að gæta í málinu hafi mætt á fundinn.