09. janúar. 2014 02:36
Íslandspóstur, opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins, hækkaði verðskrá sína fyrir bréfapóst um nýliðin áramót um fast að 10%. Hækkunin er í mikilli mótsögn við nýlega gerða kjarasamninga aðila á vinnumarkaði og samkomulag þar sem hvatt er til að hið opinbera og fyrirtæki í landinu haldi verðhækkunum í skefjun. Að öðrum kosti fari af stað víxlhækkun launa og verðlags með tilheyrandi verðbólgu sem gerir 2,8% launahækkun að engu á augabragði. Afar lítið fór af fréttum um væntanlega hækkun Íslandspósts og hefur Skessuhorn heimildir fyrir því að jafnvel föstum viðskiptavinum hafi ekki verið gert viðvart um fyrirhugaða hækkun fyrr en nokkrum dögum eftir að hún tók gildi. Til að hækka verð fyrir þjónustu Íslandspósts þarf önnur opinber stofnun, Póst- og fjarskiptastofnun, að samþykkja beiðni um gjaldskrárhækkun. Á heimasíðu Íslandspósts segir að Póst- og fjarskiptastofnun hafi á Þorláksmessu samþykkt breytingu verðskrárinnar miðað við að hún taki gildi um áramót, eða viku síðar. Í frétt Íslandspósts um hækkuna segir að gjaldskráin hafi verið óbreytt frá 1. júlí 2012 en hún að öðru leyti rökstudd með eftirfarandi hætti:
„Nokkrar ástæður eru fyrir verðskrárbreytingunni: Í fyrsta lagi hefur bréfum fækkað mikið á undanförnum árum. Í öðru lagi almennar verðhækkanir í rekstri fyrirtækins. Í þriðja lagi fjölgun íbúða sem hefur bein áhrif á kostnað dreifikerfis. Í fjórða lagi lagaskylda Íslandspósts um að veita alþjónustu en ekki hafa náðst fram breytingar á henni, sem Íslandspóstur hefur lagt til.“
Hækkun á fimm algengum gjaldflokkum er frá 8% til 9,85%. A póstur hækkar um 8,3%, B póstur um 8,7%, AM póstur um 9%, BM póstur um 9,85% og bréf í þyngdarflokknum 51-100 grömm um 8%.