10. janúar. 2014 01:16
Teitur Pétursson og Jón Björgvin Kristjánsson hafa framlengt samninga sína við KFÍA til næstu tveggja ára. Báðir voru þeir lánaðir til KF í Fjallabyggð síðasta sumar þar sem þeir voru fastamenn í baráttunni í 1.deild. Auk þess spilaði Jón Björgvin tímabilið 2011 með KF. Þeir hafa báðir staðið sig afar vel síðan liðið hóf æfingar að nýju í byrjun nóvember. Báðir eru þeir uppaldir Skagamenn, Jón Björgvin verður 22ja ára á árinu og er miðjumaður en Teitur er 21 árs varnarmaður, bæði miðvörður og bakvörður. Gunnlaugur Jónsson þjálfari er hæstánægður með að leikmennirnir hafa framlengt sína samninga. „Þeir hafa báðir komið sterkir inn í haust og eru greinilega hungraðir að berjast fyrir sæti í liðinu. Þeir hafa klárlega notið góðs af veru sinni fyrir norðan þar sem þeir fengu dýrmæta reynslu undir stjórn Lárusar Orra Sigurðssonar,“ segir Gunnlaugur þjálfari.
Hann ætlar að byggja Skagaliðið upp á blöndu ungra og eldri leikmanna. Gunnlaugur segir leikmannahópinn nú að mestu mótaðan, vera kunni að einn leikmaður muni bætast við og ef til vill yrði hann sóttur út fyrir landsteina. Nú sem stendur er enginn erlendur leikmaður í herbúðum Skagamanna. Fyrsti leikur Skagamanna á árinu verður í Fotbolta.net mótinu nk. laugardag, á morgun, í Akraneshöllinni þegar Haukar koma í heimsókn. Bæði þessi lið leika í 1. deildinni næsta sumar.