13. janúar. 2014 11:01
Um 781 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll á nýliðnu ári samkvæmt talningum Ferðamálastofu og hafa aldrei verið fleiri. Um er að ræða 20,7% aukningu frá 2012 þegar erlendir ferðamenn voru 647 þúsund. Aukning eftir mánuðum hefur verið mismikil en hlutfallslega var hún þó mest í nýliðnum desembermánuði þegar ferðamönnum fjölgaði um 49%. Bretar báru uppi nærri helming þeirrar aukningar. Fjöldamet voru slegin í öllum mánuðum ársins 2013. Í febrúar, mars og desember fór aukning ferðamanna yfir 40% í samanburði við sömu mánuði árið 2012. Í janúar, apríl, júní og nóvember var aukningin á bilinu 20-30% og í maí, júlí, ágúst, september og október var hún á bilinu 10-20%. Ýmsar ástæður hafa verið nefndar fyrir þessari aukningu. Áfram var mikil umfjöllun um landið á erlendum vettvangi þar sem saman fór öflugt markaðsstarf og fleiri þættir. Þá er ljóst að framboð á flugsætum hefur aldrei verið meira en í fyrra og gengið áfram hagstætt fyrir erlenda ferðamenn.
Tæplega þrír fjórðu ferðamanna árið 2013 voru af tíu þjóðernum. Bretar og Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir en þar á eftir komu ferðamenn frá Þýskalandi, Noregi, Frakklandi, Danmörku, Svíþjóð, Kanada, Hollandi og Kína. Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum mest árið 2013. Þannig komu 42.500 fleiri Bretar árið 2013 en árið 2012, 24.700 fleiri N-Ameríkanar og 10.600 fleiri Þjóðverjar.