14. janúar. 2014 08:01
Það voru tímamót í útgerðarsögu togarans Helgu Maríu AK um liðna helgi en þá var lagt af stað í fyrstu veiðiferð skipsins sem ísfiskstogara. Sú ákvörðun var tekin í byrjun síðasta árs að auka áherslu á landvinnslu botnfisks hjá HB Granda en draga úr sjófrystingu. Helga María kom til landsins í lok nóvember eftir breytingarnar í Póllandi og tók þá við vinna íslenskra verktaka sem sáu um niðursetningu á öllum búnaði á millidekki skipsins og annan frágang. Á millidekkinu hefur verið komið fyrir mjög fullkomnum búnaði sem miðar að því að hráefnisgæðin verði sem allra mest. Fiskurinn er blóðgaður og slægður um leið og hann berst inn á millidekkið og þaðan liggur leið hans í blóðgunarkar og síðan í kar þar sem fiskurinn er kældur niður undir 0°C og er gert ráð fyrir að það geti tekið um 40 mínútur. Kerfið er tvöfalt og afkastageta þess um 16 tonn á klukkustund. Eftir kælingu er hægt að flokka fiskinn í fjóra mismunandi stærðarflokka og honum er síðan komið fyrir í fiskkörum með ískrapa í kælilestinni.
Að sögn Eiríks Ragnarssonar skipstjóra, sem verið hefur í áhöfn skipsins allt frá því að það kom til landsins árið 1989, fyrst sem 1. stýrimaður og afleysingaskipstjóri og síðar sem skipstjóri frá árinu 1995, var brottför úr höfn í Reykjavík síðdegis sl. laugardag.
,,Öllum prófunum í landi er lokið og nú verður búnaðurinn reyndur á sjó,“ sagði Eiríkur á fréttavef HB Granda, en að hans sögn verður fyrsta veiðiferðin nokkurs konar prufutúr. Fyrir vikið verða 17 skipverjar um borð auk fjögurra tæknimanna en miðað er við að 15 manns verði í áhöfn hverju sinni framvegis. Eiríkur segir að veðurspáin sé slæm fyrir næstu daga og það muni því reyna á skip og áhöfn svo ekki sé talað um tæknimennina.