15. janúar. 2014 06:01
Á fundi starfshóps um atvinnu- og ferðamál á Akranesi á dögunum var farið yfir samantekt frá stefnumótunarfundi í atvinnumálum sem haldinn var 30. nóvember sl. Ingibjörg Valdimarsdóttir formaður starfshópsins kynnti samantektina sem unnin var út frá hópavinnu á fundinum og verður notuð til mótunar á nýrri stefnu í atvinnumálum á Akranesi. Í bókun á fundi starfshópsins í síðustu viku segir að verkefnastjóra verði falið að útbúa kynningarefni úr samantektinni til að birta á heimasíðu bæjarins ásamt því að senda þátttakendum af stefnumótunarfundinum afrit í pósti. Starfshópurinn mun hitta fundarstjóra á umræddum fundi í nóvember, á næstunni til að taka næstu skref í stefnumótunarvinnunni. Fundarstjóri á atvinnumálafundinum í nóvember var Guðfinna Bjarnadóttir ráðgjafi og fyrrum rektor Háskólans í Reykjavík.