15. janúar. 2014 08:01
Honum brá heldur en ekki í brún bíleigandanum sem brá sér í Nettó í Borgarnesi sl. föstudag og skildi bílinn eftir á bílastæðinu. Maðurinn fann bílinn ekki þegar hann kom út úr versluninni stuttu síðar. Sneri hann sér því til lögreglunnar með vandræði sín og tilkynnti að bílnum sínum hefði verið stolið. Þegar á manninn var gengið viðurkenndi hann að bíllinn hafi verið ólæstur og reyndar hafi lyklarnir verið í „svissinum“ og bíllinn líklegast í gangi. Bíllinn fannst skömmu síðar, vel lagt, á bak við Bónusverslunina í Borgarnesi með lyklana í hanskahólfinu. Talið var jafnvel líklegast að einhver góðkunningi eigandans væri að reyna að kenna honum þá lexíu að bjóða ekki upp á svona auðveldan ökutúr fyrir gesti og gangandi.