15. janúar. 2014 07:00
Veiðar dagróðrabáta á Vesturlandi fóru þokkalega af stað á nýju ári, loks þegar menn komust á sjó vegna veðurs. Tíðin hefur verið afar erfið undanfarið með miklum umhleypingum og menn ekki komist á sjó svo dögum skiptir. Fiskverð á uppboðsmörkuðum var mjög hátt strax í upphafi árs en lækkaði svo þegar afli fór að berast á land í annarri viku mánaðarins. Blaðamaður Skessuhorns tók púlsinn á fiskiríinu þegar bátarnir komu til hafnar í Ólafsvík í liðinni viku og ræddi við nokkra sjómenn um leið og þeir komu í land úr róðri dagsins.
„Við gátum ekki lagt netin fyrr en 5. janúar. Ég held að það sé í fyrsta skipti í 40 ára sögu þessa báts að við leggjum ekki fyrstu netatrossur ársins 2. janúar. Það var bara stanslaust bál þarna fyrstu dagana eftir áramót. Fyrsta löndun ársins hjá okkur var sunnudaginn 5. janúar. Það var mjög lítið í fyrsta túrnum því veðrið rauk upp þegar við vorum aðeins búnir að leggja fjórar trossur,“ sagði Björn Erlingur Jónasson skipstjóri og útgerðamaður á Ólafi Bjarnasyni SH 137 þegar báturinn kom úr öðrum róðri sínum á árinu miðvikudaginn 8. janúar.
Björn var sæmilega sáttur við aflabrögðin þó þau væru í dræmara lagi. „Það er svona reytingur. Aflabrögðin í netin eru þau minnstu sem verið hafa í fleiri ár núna í byrjun janúar. Við höldum að það sé út af þessum norðan óveðrum sem hafa verið að ganga hér yfir um hátíðarnar, hvernig sem skýra má það. Aflabrögðin voru mun skárri fyrir jól. Það var orðið mjög gott fiskirí í síðustu róðrunum fyrir hátíðar.“
Útgerð Ólafs Bjarnasonar SH er Valafell. Fyrirtækið rekur saltfisksverkun í húsunum sem eina tíð heyrðu undir fiskverkunina Hróa sem þá var ein stærsta saltfisksverkun landsins. Yfirleitt eru sjö menn í áhöfn bátsins.
„Við löndum öllum þorskinum sem við veiðum árið um kring í vinnsluna okkar. Allur annar afli fer á markað. Afurðaverðið í söltuðum þorski hefur vissulega lækkað verulega á undanförnum misserum vegna efnahagsástandsins í mikilvægum markaðslöndum eins og á Spáni. Þó eru vísbendingar um að botninum sé náð. Verðið er hætt að lækka,“ sagði Björn.
Það eru einnig góð tíðindi að þorskurinn sem nú veiðist við Snæfellsnes er vel haldinn. „Hann er búinn að vera það síðustu árin. Mikil lifur í honum og pattaralegur.“
Sjá nánar bryggjuspjall við sjómenn í Ólafsvík í nýju Skessuhorni sem kom út í dag.