15. janúar. 2014 09:01
Fjallið Skessuhorn í norðanverðri Skarðsheiðinni, sem blaðið heitir eftir, er allvinsælt til uppgöngu hjá fjallaklifrurum. Guðmundur Freyr Jónsson starfsmaður Neyðarlínunnar er búsettur í Kópavogi. Hann hefur sex sinnum um jól gengið á Skessuhornið, aldrei einsamall en mest með tvo félaga í för.
Um síðustu jól gekk hann á fjallið ásamt Haraldi Erni Ólafssyni heimskautafari. Guðmundur og félagar eru ekkert að víla það fyrir sér þótt eitthvað sé að veðri, telja sig þekkja til bæði misjafnra og erfiðra aðstæðna, þess vegna í stakk búnir að bjóða náttúruöflunum birginn. Allmikill strekkingur var þegar þeir gengu á fjallið um síðustu jól, en ekki þó jafnkalsamt og 2011 þegar 24 gráðu frost var á toppnum og um 15 metra á sekúndu vindhraði. Í það skiptið var ekki tekin nestispása á toppnum, enda hangikjötið og flatkökurnar orðið fullstíft og kalt til neyslu. Hvað þá að fjallagarparnir gæfu sér tóm til að svara símhringingum og láta vita af sér af hættu við að hljóta kalsár á fingrum, en kuldinn var farinn að bíta ansi hressilega í andlit.
Sjá frásögn af þessari jólafjallgöngu með myndum í Skessuhorni sem kom út í dag.