17. janúar. 2014 08:01
Albert Guðmundsson bóndi á Heggsstöðum í Kolbeinsstaðahreppi veltir því fyrir sér þessa dagana hvað í ósköpunum hafi gerst þar sem kindur hans bera nú hver af annarri í ársbyrjun. Þegar hafa 12 ær borið, þar af fimm tvílembdar. Ekki sér fyrir endann á því ennþá hve margar kindur muni bera þegar upp verður staðið á þessum óvenjulega sauðburðartíma.
„Þetta er eitthvað ónáttúrulegt. Kindur eiga ekki að ganga undir hrúta um miðjan júlí eins og þessar hafa gert, hvað þá þegar þær eru með lömb á spena. Við vitum þó að þetta hefur gerst. Svona uppákomur eru ekki óþekktar, en hvað veldur er ekki vitað. Reyndar sá ég eina kind ganga í sumar sem leið en taldi það algera undantekningu. Nú þegar eru komin tæplega 20 lömb og mér finnst þetta orðið ágætt. Þær gætu þó þess vegna verið að bera hjá mér fram á vor,“ segir Albert.