Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
17. janúar. 2014 06:01

Þröng staða smábátasjómanna við ýsuveiðarnar

Kvótaskortur á ýsu er vaxandi vandamál hjá smábátunum sem róa með línu. Samkvæmt fréttum frá Landssambandi smábátaeigenda (LS) eru aðeins innan við 400 tonn eftir af úthlutuðum veiðiheimildum krókabáta í ýsu þegar aðeins þriðjungur er liðinn af fiskveiðiárinu. „Brýnna en nokkru sinni er að ráðherra komi að þeim vanda sem útgerðir smábáta eiga við að etja við veiðar á þorski vegna mikils meðafla í ýsu,“ gat að lesa á heimasíðu LS í liðinni viku. „LS hefur margsinnis vakið máls á þessum vanda en ekki haft árangur sem erfiði. Aðilar sem rætt hefur verið við segja að margar útgerðir íhugi nú alvarlega að binda bátana þegar helmingi veiðiskyldu hefur verið náð og leigja þann hluta kvótans sem ekki nýtist í færslu yfir á næsta ár. Þeir segja ekki grundvöll fyrir veiðunum þegar greiða þarf 300 krónur fyrir hvert kíló af ýsu í kvótaleigu,“ stóð ennfremur á vef samtakanna.

 

Gísli Marteinsson í Ólafsvík, sem ræð á Glað SH tekur undir að staðan sé þröng við ýsudráttinn. „Við erum með frekar litlar aflaheimildir í henni og þurfum að leigja til okkar ýsukvóta á 300 krónur kílóið. Í allt haust vorum við að fá sama verð, 300 krónur fyrir ýsuna. Ef við værum gjarnir á að kvarta þá værum við kveinandi yfir því,“ sagði Gísli Gunnar Marteinsson skipstjóri á Glað SH þegar löndun var lokið í Ólafsvík sl. fimmtudag þegar blaðamaður Skessuhorns var á svæðinu.

 

 

 

Ýsan er meðafli við þorskveiðarnar

Menn laga sig að aðstæðum. Gísli útskýrir nánar hvernig hægt er að gera út þó ýsukvótinn sé lítill og leiguverð á kvótanum í hæstu hæðum. „Við höngum bara á þessari línuívilnun. Ef við róum með handbeitta línu fáum við að veiða 20% meira en kvótinn segir til um. Sjáðu reikningsdæmið sem ég var að segja þér. Við veiðum á 300 kall, seljum á 300 kall. Munurinn sem reddar þessu dæmi fyrir horn er línuívilnunin og síðan slægingarstuðullinn sem er reiknaður á ýsuna. Síðan megum við landa fimm prósentum sem svokölluðum Hafró-afla. Við fáum 70 krónur fyrir kílóið þannig. Ef við löndum 100 tonnum þá geta fimm tonn farið þangað. Það eru svona atriði sem gera okkur kleift að sleppa frá ýsunni án þess að tapa beinlínis á henni. En þetta er í járnum. Við leigjum aldrei þorsk, hann er bara af okkar eigin kvóta. Við hættum bara veiðum um leið og þorskkvótinn er veiddur upp.“

 

Trillurnar í dag leigja mest af ýsunni til sín frá stóru skipunum. „Í mörg ár hafa menn aldrei getað fengið ýsu í troll á veturna. Þess vegna er talað um það í dag að ýsustofninn sé í lægð af því að togararnir í togararallinu fá aldrei neina ýsu. Í fyrravetur gerðist það svo að ýsan fór að veiðast í troll. Þá heyrði ég af því að ein útgerðin hefði stoppað togarana sína af í ýsuveiðunum. Það var mikið betra að leigja okkur ýsuna á 300 kall kílóið heldur en að láta eigin skip veiða hana. Þetta er dálítið fyndið,“ segir Gísli Marteinsson og vottar fyrir kaldhæðni.

 

Sjá nánari umfjöllun og spjall við sjómennina í Skessuhorni vikunnar.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is