20. janúar. 2014 02:33
Snæfellskonur eru komnar áfram í undanúrslit Bikarkeppni KKÍ, Poweradebikarnum. Þær unnu Val í 8-liða úrslitum á Hlíðarenda sl. laugardag, sannfærandi sigur 86:72. Lið KR og Hauka eru einnig komin áfram í keppninni og fjórði leikurinn fer fram í kvöld þegar nágrannarnir í Keflavík og Njarðvík mætast. Snæfell náði strax undirtökunum í leiknum gegn Val. Forskot gestanna var tíu stig eftir fyrsta leikhluta, 27:17. Svipaður munur hélst fram að hálfleik og þá munaði ellefu stigum á liðunum, 46:35, fyrir Snæfell. Heimastúlkur í Val mættu grimmar til seinni hálfleiks og tókst að saxa á forskot Snæfells, sem var enn fimm stigum yfir fyrir lokafjórðunginn. Í honum var gestaliðið mun betra og eins og áður segir sannfærandi Snæfellssigur í lokin, 86:72. Hjá Snæfelli var Chynna Brown atkvæðamest með 26 stig, Hildur Björg Kjartansdóttir kom næst með 17, Eva Margrét Kristjánsdóttir 16, Hildur Sigurðardóttir 13, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 7, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 5 og Hugrún Eva Valdimarsdóttir 2.