21. janúar. 2014 11:17
Kvennalið ÍA sem leikur í Pepsídeildinni næsta sumar hóf leik í Faxaflóamótinu í knattspyrnu sl. laugardag. Skagakonur fóru á Selfoss og mættu þar liði heimamanna sem einnig eru í Pepsídeildinni. Ekki byrjaði mótið vel hjá ÍA sem tapaði leiknum 2:5 en leikið var á gervigrasinu á Selfossi. Skagakonum gekk reyndar vel að skora í byrjun. Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoraði strax á 10. mínútu leiksins. Heimakonum tókst fljótlega að jafna en Bryndís Rún Þórólfsdóttir kom ÍA aftur yfir á 19. mínútu. Það reyndist skammgóður vermir því Selfosskonur bættu við fjórum mörkum til viðbótar. Næsti leikur hjá ÍA verður fimmtudagskvöldið 30. janúar í Akraneshöllinni gegn Breiðabliki. Einnig eru í riðlinum Hafnarfjarðarliðin Haukar og FH.
Víkingskonur, sem eru einnig í Faxaflóamótinu en í öðrum riðli en ÍA, byrjuðu afleitlega. Þær töpuðu 1:9 fyrir Breiðabliki 2. Víkingskonur mæta næst liði Álftaness á gervigrasinu í Garðabæ nk. laugardag. Álftanes vann Keflavík 3:0 í fyrsta leik en í riðlinum er einnig lið Grindavíkur.