23. janúar. 2014 08:01
Um þessar mundir eru 15 ár frá því uppbygging svínabús Stjörnugríss byrjaði á Melum í Melasveit. Þar hefur frá þeim tíma farið fram mesta matvælaframleiðsla á einu búi á Vesturlandi. Í upphafi var gefið út starfsleyfi fyrir eldi átta þúsund grísa á búinu í einu. Svínaræktin á Íslandi og vægi þeirrar búgreinar í íslenskum landbúnaði hefur ekki farið hátt í umræðunni, hvorki í fjölmiðlum eða annarsstaðar í þjóðfélaginu. Við búgreinina hefur loðað neikvæður stimpill. Gjarnan hefur verið talað um verksmiðjubúskap þegar minnst er á svínarækt. Geir Gunnar Geirsson framkvæmdastjóri Stjörnugríss segir að þetta sé einhvers konar „mýta“ - fáfræði sem erfitt sé að vinna gegn.
Á Melum hefur síðustu árin verið unnið að aukinni sjálfbærni búsins. Það hefur m.a. verið gert með þurrkun og jarðabótum á miklu landi á Melum og nærliggjandi jörðum, Sómastöðum og Ási. Eigendur Melabúsins keyptu þær í upphafi og á seinni árum. Farið var af stað með kornrækt síðasta vor sem ætlunin er að stórauka á næstu árum. Blaðamaður Skessuhorn kíkti í heimsókn á Mela á dögunum þar sem ýmislegt var rætt í sambandi við svínaræktina. Meðal annars samkeppnisstöðu greinarinnar, svo sem með tilliti til aðildar að Evrópusambandinu ef til kæmi.
Sjá nánar nýjasta tölublaði Skessuhorns sem kom út í gær.