23. janúar. 2014 01:59
Hálfur annar mánuður er nú liðinn frá því fjármálaráðherra birti í Lögbirtingablaðinu kröfur sínar í landssvæði í Borgarfirði í svokölluðu þjóðlendumáli. Málið hefur ítarlega verið rakið í Skessuhorni. Heimamenn í héraði brugðust strax til varna og réðu lögfræðinga til að gæta hagsmuna landeigenda, sveitarfélagsins og annarra hagsmunaaðila. Nýverið áttu þeir Björn Bjarki Þorsteinsson formaður byggðarráðs Borgarbyggðar og Óðinn Sigþórsson, sem haldið hefur utan um málið af hálfu Borgarbyggðar og annarra landeigenda, fund með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra um kröfur ríkisins í Borgarfirði. Farið var yfir kröfugerðina og viðbrögð heimamanna kynnt ráðherra. Einnig var rætt um hvernig krafa fjármálaráðherra kemur við eignarlönd og jarðir í eigu einkaaðila í sveitarfélaginu og framkvæmd þjóðlendumála almennt, segir í tilkynningu frá Borgarbyggð. Þá segir að fundurinn hafi verið gagnlegur að mati þeirra sem hann sátu og að þeir Bjarki og Óðinn hafi verið ánægðir með viðbrögð ráðherra við þeirri sýn sem þeir settu fram, en mjög langt er seilst af hálfu ríkisins inn á eignarlönd eins og komið hefur fram hjá Óðni Sigþórssyni m.a. í Skessuhorni.