24. janúar. 2014 10:21
Fjölmenni var samankomið í leikskólanum Akraseli á Akranesi í morgun, að morgni bóndadagsins. Akrasel er nýjasti leikskólinn í bæjarfélaginu, rúmlega fimm ára gamall. Starfsfólk leikskólans hefur jafnan á bónda- eða konudegi haft opið hús í skólanum og gjarnan tengt þá heimsókn ákveðnu þema. Í þetta skiptið var feðrum barnanna einkum boðið í heimsókn í tilefni dagsins. Starfsfólkið með hjálp maka hafði tínt saman hluti sem tengjast sporti sem þau stunda og úr varð heilmikil sýning í Akraseli. Anney Ágústsdóttir leikskólastjóri sagði ótrúlegt hvað fengist hefði á þessa sýningu og meira að segja var þarna til sýnis búnaður til köfunar. Sýningin í heild leiddi í ljós hvers fjölbreytt og um leið skemmtilegt sport er stundað í íþróttabænum Akranesi. Það voru þó hlutir umfram aðra sem vöktu áhuga barnanna og m.a. var greinilegt að það voru bílarnir sem strákarnir höfðu langmestan áhuga fyrir.