24. janúar. 2014 12:01
Í dag er fyrsti dagur í Þorra en hann hefur um aldabil verið kallaður bóndadagur. Um fyrsta dag Þorra segir í bréfi Jóns Halldórssonar í Hítardal sem hann ritaði til Árna Magnússonar árið 1728, „að sú hefð sé meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður og bjóði þorrann velkomin, og inn í bæ, eins og um tignann gest væri að ræða.“ Þá segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar að bóndi skyldi bjóða þorra velkomin með eftirfarandi hætti: „...með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir að fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag; þetta er „að fagna þorra“.
Sumsstaðar á Norðurlandi er fyrsti þorradagur enn í dag kallaður „bóndadagur“ á þá húsfreyjan að halda vel til bónda síns og heita þau hátíðabrigði enn „þorrablót“. Í dag hafa hefðir að nokkru breyst. Algengt er að kona færi bónda sínum blóm í tilefni bóndadags og að karlmennirnir endurgjaldi þann sið á konudaginn, þegar Góa tekur við af Þorra. Sú hefð sem lítt hefur þó breyst í tímans rás er Þorrablótin. Nokkur þeirra eru á dagskrá þegar í kvöld á veitingastöðum og samkomuhúsum og á morgun, laugardag, mjög víða á Vesturlandi.