26. janúar. 2014 01:35
Þorrablót Skagamanna fór fram fyrir troðfullu húsi í Íþróttahúsinu við Vesturgötu í gærkveldi, á öðrum degi Þorra. Um 660 gestir voru í mat og er það nokkuð fleiri en í fyrra. Á eftir var svo ball og bættist þá enn í hópinn. Mannskapurinn skemmti sér konunglega og var mál manna að vel hefði tekist til í skemmtun og ekki síður mat sem kom frá veitingastaðnum Galíto. Hefð er fyrir því að á þorrablóti Skagamanna sé maður ársins valinn. Skagamaður ársins 2013 var útnefndur, við mikinn fögnuð viðstaddra, Ísólfur Haraldsson bíóstjóri og framkvæmdastjóri Vina hallarinnar. Á meðfylgjandi mynd er Ísólfur ásamt Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra.