29. janúar. 2014 12:01
Menntamálaráðuneytið skoðar nú hvort fjárhagsvandi Landbúnaðarháskóla Íslands verði leystur með sameiningu skólans við Háskóla Íslands eða með því að starfsemi hans verði sameinuð í eina starfsstöð á Hvanneyri. Þetta kemur fram í áliti fjárlaganefndar Alþingis um skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga á fyrri hluta síðasta árs sem birt var á mánudaginn. Fjárlaganefnd leggur áherslu á að ráðuneytið taki afstöðu til tillagnanna og hrindi þeim í framkvæmd í samvinnu við stjórnendur LbhÍ ekki síðar en í næsta mánuði. Nefndin gerir ekki ráð fyrir viðbótarframlagi til skólans til að mæta uppsöfnuðum halla heldur verði tillögurnar að rúmast innan heildarramma ráðuneytisins til háskólamála.
Fundað var í vinnuhópi um framtíð háskólanna í Borgarbyggð á mánudagskvöld vegna málsins. Björn Bjarki Þorsteinsson formaður byggðarráðs Borgarbyggðar er formaður hópsins. Hann sagði í samtali við Skessuhorn að fulltrúar menntamálaráðuneytisins hafi mætt á fundinn og kynnt þær tillögur sem verið væri að vinna að fyrir hópnum. „Þær tillögur sem við sáum á fundinum miðuðust við að skólinn yrði lagður niður sem sjálfstæður skóli og starfsemin sameinuð Háskóla Íslands. Í staðinn verði auknu fé varið til að styrkja Hvanneyri og þá starfsemi sem þar er og mögulega nýja starfsemi. Við fögnum því að loks sé hulunni svipt af þessari vinnu en okkur finnst þetta að mörgu leyti mjög sérstök stefna og viljum við frekar að fjármunir sem ráðgert er að setja í styrkingu Hvanneyrar renni til sjálfstæðs skóla á staðnum," segir Björn Bjarki.
Sjá nánar um málið á forsíðu nýjasta tölublaði Skessuhorns sem kom út í dag. Þar er m.a. rætt við Björn Bjarka Þorsteinsson um málið og næstu skref vinnuhópsins.