29. janúar. 2014 11:05
Morgunblaðið birtir í dag skoðanakönnun um fylgi flokka á Akranesi. Samkvæmt niðurstöðum hennar er meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks og Vinstri grænna í bæjarstjórninni fallinn.
Sjálfstæðisflokkurinn bætir 8,9 prósentum við sig frá kosningunum 2010. Samkvæmt könnuninni fer hann úr 25,2% í 34,1%. Samfylkingin tapar hins vegar 11,4% fylgi. Flokkurinn fer úr 34,8% árið 2010 í 23,4%.
Framsóknarflokkurinn dalar einnig. Hann fer úr 23,8% fylgi kosninganna fyrir fjórum árum í 16,8% í könnun Morgunblaðsins. Það yrði 7% tap ef þetta yrðu niðurstöður kosninga. Einnig dregur úr stuðningi við VG. Flokkurinn fellur úr 16,3% í 10,2%.
Björt framtíð og Píratar sem aldrei hafa boðið fram í bæjarstjórnarkosningum á Akranesi mælast nú með fylgi. Björt framtíð myndi samkvæmt könnuninni fá 12% og Píratar 3,6%. Þannig fengi Björt framtíð einn bæjarfulltrúa. Aðrir flokkar mælast ekki.
Miðað við niðurstöður þessarar könnunar er núverandi meirihluti bæjarstjórnar fallinn. Hann fengi fjóra fulltrúa í bæjarstjórn í stað þeirra sjö sem sitja á hans vegum í dag.
Könnunin var gerð af Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hún var framkvæmd dagana 15. til 23. janúar. Svarhlutfall í henni var 62% og fjöldi þeirra sem svöruðu voru 306 manns.
Þess má geta að engir flokkar eða framboð hafa enn opinberað lista sína til komandi bæjarstjórnarkosninga sem haldnar verðar 31. maí.