29. janúar. 2014 01:01
Met féll í spennuleik Skallagríms og Stjörnunnar í Dominos deild karla í Borgarnesi á fimmtudaginn þegar Skallagrímsmaðurinn Páll Axel Vilbergsson skoraði sex þriggja stiga körfur. Þar með bætti hann met Keflvíkingsins Guðjóns Skúlasonar sem fyrir leikinn hafði skorað flestar þriggja stiga körfur á Íslandsmótinu í körfubolta, eða 965 körfur eða hátt í 3000 stig. Páll Axel hafði skorað 964 þriggja stiga körfur fyrir leikinn og er því nýja metið hans 970 körfur. Í sama leik átti yngri bróðir Páls Axels, Ármann Örn, sem gekk í raðir Borgnesinga í desember, sinn besta leik á ferlinum þegar hann skoraði 25 stig. Þar af skoraði hann átta körfur fyrir utan þriggja stiga línuna. Má því með sanni segja að bræðurnir hafi skotið Garðbæinga í kaf með frammistöðu sinni. Blaðamaður Skessuhorns hitti þessa skotvísu og hressu bræður úr Grindavík og ræddi við þá um körfuboltann og baráttuna framundan.
Er þakklátur
Páll Axel segist ekki hafa áttað sig á því að hann væri að fara að bæta þriggja stiga metið fyrr en blaðamaður Fréttablaðsins gerði frétt um málið í upphafi síðustu viku. Í hans huga skipta met þó ekki öllu máli heldur aðrir þættir körfuboltans. ,,Jú, jú, það er vitaskuld gaman að eiga met eins og þetta og sýnir þetta kannski hvað maður er búinn að vera iðinn í boltanum í gegnum árin. Tölfræðimet og annað slíkt skiptir þó ekki í öllu máli í mínum huga. Þegar ég hugsa til baka og lít yfir ferilinn þá eru það ekki körfurnar sem maður hefur skorað sem standa upp úr heldur frekar kynnin við alla þá leikmenn sem maður hefur spilað með," segir Páll Axel sem þótti engu að síður vænt um að vera heiðraður af Borgnesingum eftir leikinn gegn Stjörnunni á síðastliðinn fimmtudag.
Lesa má viðtal við þriggja stiga skytturnar og bræðurna Pál Axel og Ármann Örn Vilbergssyni, leikmenn Skallagríms, í nýjasta tölublaði Skessuhorns sem kom út í dag.