29. janúar. 2014 02:01
Sigurborg Kr. Hannesdóttir forseti bæjarstjórnar Grundarfjarðar hefur gegnt því embætti allt þetta kjörtímabil. Hún hyggst ekki gefa kost á sér á framboðslista í kosningum í vor. Við sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2010 var hún oddviti fyrir L-listann, bæjarmálafélagið Samstöðu. Þetta var sameiginlegur listi óflokksbundins fólks og félaga úr Samfylkingu, Framsóknarflokki og Vinstri Grænum. L-listinn sigraði í Grundarfirði og fékk 55,6% atkvæða. D-listi Sjálfstæðisfélags Grundarfjarðar og óháðir fengu 44,4%.
Sigurborg ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn. Eftir kosningarnar í vor dregur hún sig út úr stjórnmálunum. Við hittum hana til að forvitnast um hvernig hún lítur á þetta kjörtímabil sitt sem sveitarstjórnarmaður. „Ég stökk beint út í djúpu laugina þegar ég gaf kost á mér fyrir fjórum árum. Ég hafði litla reynslu af stjórnmálastarfi, bæði var og er óflokksbundin. Ég hafði heldur ekki setið bæjarstjórnarfundi, fór beint í að stýra þeim, sem forseti bæjarstjórnar. Til að læra lá ég á netinu og hlustaði og horfði á upptökur af fundum frá öðrum stöðum,“ segir Sigurborg og hlær við. Hún þekkti þó vel til á Snæfellsnesi, er fædd og uppalin í Stykkishólmi. Í Grundarfirði hefur hún búið frá árinu 2004. Námsárunum varði hún í að nema félagsfræði við Háskóla Íslands og í Englandi þar sem hún lauk meistaragráðu í ferðamálafræði. Svo urðu það tíu ár við störf á Egilsstöðum og fimm í Reykjavík. „Það var ástin sem dró mig til Grundarfjarðar,“ segir hún. Eiginmaður hennar er Ingi Hans Jónsson. Þau búa í fallegu húsi miðsvæðis í Grundarfirði sem þau eru að ljúka við að gera upp.
Sjá viðtal við Sigurborgu Kr. Hannesdóttur fráfarandi forseta bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar í nýjasta tölublaði Skessuhorns sem kom út í dag.