30. janúar. 2014 01:01
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, lagði í vikunni fyrirspurn fyrir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra um hvað ríkisstjórnin hygðist gera varðandi rekstarvanda dvalar- og hjúkrunarheimila á Vesturlandi. Fyrirspurn sína byggði Lilja Rafney á upplýsingum um bága stöðu margra elliheimila í landshlutanum sem komu fram í úttekt Skessuhorns í síðustu viku. Hún spurði ráðherrann einnig hvort hann teldi að núverandi staða mála gæti haldist mikið lengur. Kristján tók undir að rekstrarvandinn væri vissulega fyrir hendi sumsstaðar á Vesturlandi. Það yrði að greina stöðuna betur og endurskoða regluverk. Þó taldi ráðherrann ekki að lausnin fælist í að hækka dvalargjöld almennt um 15%. Ráðherrann benti á að búið væri að bæta hátt í milljarði króna í málaflokkinn, einkum til að fjölga plássum. „Ég legg áherslu á að við verðum að bíða því það stendur ekki til að breyta fjárlögum ársins. Þetta var markað í lok desember á síðasta ári, hver fjárveitingin væri sem við hefðum úr að spila,“ svaraði heilbrigðisráðherra að lokum.