31. janúar. 2014 09:26
Snæfellingar áttu sinn besta leik í talsverðan tíma í Dominosdeild karla þegar þeir tóku á móti Haukum í Hólminum í gærkveldi. Þeir áttu ekki í neinum teljandi vandræðum með Hafnfirðingana og unnu sannfærandi sigur, 96:82. Það var eins gott fyrir Hólmarana að landa sigri í þessum leik því önnur lið eru farin að sauma að þeim í 8. sæti deildarinnar, svo sem ÍR og ef til Skallagrímur ef Borgnesingar vinna fallslaginn á Ísafirði í kvöld.
Snæfellingar voru strax komnir með góða stöðu eftir fyrsta leikhluta, ellefu stiga forskot 29:18. Hólmarar bættu svo heldur við áður en blásið var til hálfleiks en þá var staðan 56:40. Heimamenn juku enn við forustuna og áður en lokakaflinn byrjaði var munurinn orðinn 20 stig, 79:59. Gestirnir náðu síðan aðeins að klóra í bakkann í lokafjórðungnum en úrslit leiksins þá í raun löngu ráðin.
Hjá Snæfelli var Travis Cohn III atkvæðamestur með 27 stig, 4 fráköst, 7 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Sigurður Á Þorvaldsson skoraði 25 stig, Jón Ólafur Jónsson 11 stig, tók 10 fráköst og átti 6 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 10 stig og 9 fráköst, Stefán K. Torfason 8 stig, Sveinn Arnar Davíðsson 6, Kristján Pétur Andrésson 5 og Þorbergur Sæþórsson 4. Hjá Haukum skoraði Haukur Óskarsson mest, 18 stig.
Í næstu umferð fer Snæfell til Grindavíkur nk. föstudagskvöld.