31. janúar. 2014 02:28
Gyða Steinsdóttir bæjarstjóri í Stykkishólmi hefur óskað eftir að láta af störfum 1. mars næstkomandi. Hún lagði fram beiðni um þetta á fundi bæjarstjórnar Stykkishólms síðdegis í gær. Erindi hennar var samþykkt. Með þessu hættir Gyða áður en ráðningartíma hennar lýkur en hann var fram til þess að ný bæjarstjórn tæki við að afloknum kosningum 31. maí næstkomandi.
Skessuhorn birti í liðinni viku viðtal við Gyðu þar sem hún sagðist ekki ætla að gefa kost á sér til starfa sem bæjarstjóri á næsta kjörtímabili. Hún sagðist vilja sinna öðrum störfum sem væru fjölskylduvænni þar sem vinnutími væri reglulegri. Gyða er móðir þriggja ungra drengja og hún vill eiga meiri tíma með þeim.
Gyða Steinsdóttir var bæjarstjóraefni L-lista félagshyggjufólks í Stykkishólmi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2010. Áður en hún gaf kost á sér til bæjarstjórastarfsins hafði hún rekið bókhaldsskrifstofu í Stykkishólmi.
Á bæjarstjórnarfundinum í gær var Lárusi Ástmari Hannessyni forseta bæjarstjórnar falið að ganga frá starfslokum Gyðu. Gretar D. Pálsson bæjarfulltrúi minnihluta Sjálfstæðisflokks lagði til að samið verði við Þór Örn Jónsson bæjarritara um að sinna störfum bæjarstjóra til loka kjörtímabilsins. Bæjarstjórn Stykkishólms samþykkti að vísa þeirri tillögu til næsta bæjarráðsfundar.