04. febrúar. 2014 01:53
Undir lok leiks Skallagríms og Stjörnunnar í Borgarnesi í Dominos deildinni í körfubolta 23. janúar síðastliðinn fékk Skallagrímsmaðurinn Egill Egilsson harkalegt olnbogaskot í andlitið frá Matthew Hairston, leikmanni Stjörnunnar. Dómari leiksins tók eftir brotinu og dæmdi ásetningsvillu í kjölfarið á Hairston. Eftir að hafa séð upptöku af leiknum töldu Skallagrímsmenn að brotið hefði verið það gróft að dómari leiksins hefði átt að dæma brottrekstravillu á Hairston. Brottrekstrarvilla er þyngsti dómur sem hægt er að dæma á körfuboltavellinum þar sem leikmanni er umsvifalaust vikið af velli og í leikbann. Ákvað stjórn körfuknattleiksdeildar Skallagríms því að kæra atvikið til aga- og úrskurðarnefndar Körfuknattleikssambands Íslands og fór fram á að Hairston fengi tilhlýðileg viðurlög vegna brotsins gegn Agli. Um tíma íhugaði stjórnin jafnvel að kæra atvikið til lögreglu en ákvað að gera það ekki. Nefndin kvað loks upp dóm sinn í gær og ákvað að Hairston fengi tveggja leikja bann fyrir brot þetta. Í dómnum kom m.a. fram sjónarmið dómara leiksins að ef hann hefði haft sama sjónarhorn og myndbandið þá hefði hann dæmt brottrekstrarvillu á Hairston.