06. febrúar. 2014 08:01
Ístöltmót fór fram á engjunum á Hvanneyri síðastliðinn sunnudag. Góð þátttaka var á mótinu en á fimmta tug knapa mætti til keppni. Keppt var í fjórum flokkum; flokki barna 13 ára og yngri, unglingaflokki 14-17 ára, flokki minna keppnisvanra og loks flokki meira keppnisvanra. Þátttakendur riðu tvær ferðir fram og tilbaka, hægt tölt og fegurðartölt. Mörg góð tilþrif sáust og þykir ljóst að margir hestar eru komnir í gott form nú í byrjun árs. Dómari mótsins var Vilhjálmur Þorgrímsson en honum til aðstoðar var Viðar Pálmarsson.