07. febrúar. 2014 11:10
Óhapp varð í Rifshöfn á níunda tímanum í gærkveldi þegar Tjaldur SH, sem er í eigu KG fiskverkunar, var að keyra í spring, eins og það er kallað, til að ná bátnum frá bryggju. Þegar keyrt er í spring þá eru landfestar dregnar aftur með bátnum og sett fast á polla til að ná skipi ýmist að eða frá bryggju. Skipti eingum togum að þegar kaðallinn slitnaði keyrði Tjaldurinn á mikilli ferð aftan á Rifsnes SH-44 sem var um 10-15 metra framan við. Við áreksturinn urðu miklar skemmdir á Rifsnesinu að aftan og einhverjar einnig fyrir neðan sjólínu. Meðal annars skekktist rekkverk skipsins. Engar teljandi skemmdir urðu hins vegar á Tjaldi SH og hélt skipið á miðin síðar um kvöldið.
Þetta er ekki eina áfallið sem Hraðfrystihús Hellissands verður fyrir vegna Rifsnessins því í liðnum mánuði hrundi önnur ljósavélin og var verið að ljúka frágangi á nýrri vél nú í vikunni.