11. febrúar. 2014 02:45
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú birt á netinu hljóðupptöku af fölsku neyðarkalli sem barst laust fyrir klukkan þrjú síðdegis sunnudaginn 2. febrúar sl. Það átti að vera frá báti á Faxaflóa. „Báturinn er farinn að leka mikið og við erum að fara í flotgallana,” sagði meðal annars í tilkynningunni. Strax var hafin víðtæk leit með ströndum, á sjó og úr lofti. Henni var formlega hætt daginn eftir þar sem talið var að um gabb hefði verið að ræða. Málið er litið mjög alvarlegum augum. Lögreglan hefur rannsakað það í samstarfi við Landhelgisgæsluna en lítt orðið ágengt við að upplýsa það. Nú hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gripið til þess úrræðis að birta hljóðupptökuna af neyðarkallinu á fésbókarsíðu sinni á netinu. Þar getur fólk hlustað og komið vísbendingum til lögreglu telji það sig bera kennsl á málróm og talanda þess sem sendi gabbið út. Allar vísbendingar sem fólk kann að hafa undir höndum eru vel þegnar. Einnig er hægt að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 eða með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is