12. febrúar. 2014 09:35
Vesturlandskeppni Samfés fór fram 30. janúar sl. í Tónbergi á Akranesi að viðstöddu fjölmenni. Keppnin þótti hin glæsilegasta og margir frambærilegir flytjendur stigu á stokk. Alls voru flutt tíu lög, öll með íslenskum texta. Lögin voru ýmist frumsamin, íslensk eða þýdd yfir á íslensku. Eftir að keppendur höfðu flutt sín lög kom hljómsveitin Lumineers frá Akranesi fram. Þá söng Ari Jónsson lag og Hallur Flosason en hann átti einnig sæti í dómnefnd ásamt Rakel Pálsdóttur og Helgu Ingibjörgu Guðjónsdóttur. Úrslit í keppninni urðu þau að atriði frá félagsmiðstöðinni Eden í Grundarfirði bar sigur úr býtum. Það var flutt af Amelíu Rún Gunnlaugsdóttur, Kristbjörgu Ástu Viðarsdóttur og Söndru Ósk Jónsdóttur, sem eru nemendur í 9. og 10. bekk Grunnskóla Grundarfjarðar. Þær sungu lagið „Komin yfir þig“ eftir Ellu Yelich O‘Connor og Joel Little en lagið heitir Royals á frummálinu, flutt af Lorde. Björg Ágústsdóttir samdi íslenska textann. Amelía, Kristbjörg og Sandra verða því fulltrúar Vesturlands í Söngkeppni Samfés sem fram fer í Laugardalshöllinni í mars.