12. febrúar. 2014 01:35
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti einróma á fundi sínum í gær að hefja nauðsynlega vinnu til að endurskoða ákvörðun sína frá 23. apríl á síðasta ári um fyrirkomulag ljósleiðaratenginga í íbúðarhús í sveitarfélaginu. Í þeirri ákvörðun fólst að miðað skyldi við fasta búsetu og lögheimili þann 23. apríl 2013 hvort ljósleiðari yrði lagður að íbúðarhúsum eða ekki. Á fundinum í gær var Laufeyju Jóhannsdóttur sveitarstjóra og Guðmundi Daníelssyni verkefnisstjóra við lagningu ljósleiðarans falið að láta vinna kostnaðaráætlun og drög að viðauka að fjárhagsáætlun til þess að sveitarstjórn geti staðfest ákvörðun um breytingu á þessum fyrri reglum. Í nýju útfærslunni skal miðað við að tengja skuli íbúðarhús, sem og íbúðarhús sem eru í byggingu og fengið hafa úthlutað byggingarleyfi fyrir verklok við lagningu ljósleiðarans. Það er því ljóst að þeir sem hyggja á að byggja íbúðarhús í Hvalfjarðarsveit og hafa hug á að fá ókeypis ljósleiðara í húsin þurfa að verða sér úti um byggingarleyfi áður en ljósleiðaraverkefninu lýkur nú í sumar.
Áfram mun Hvalfjarðarsveit gera kröfu um að viðkomandi veiti leyfi sitt um lagningu ljósleiðarans um land sitt og skuldbindi sig til tveggja ára áskriftar að ljósleiðaranum. Á fundinum í gær var sveitarstjóra einnig falið að vinna drög að gjaldskrá sem tæki gildi við verklok og leggja fyrir sveitarstjórn. Þessi tillaga var lögð fram af fulltrúum L og H lista í meirihluta sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar. Tillagan var samþykkt samhljóða af öllum sjö fulltrúum meiri- og minnihluta. Þar með hefur náðst full sátt í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar um fyrirkomulag við lagningu ljósleiðarans.
Nánar má lesa um ljósleiðaramál í Hvalfjarðarsveit í Skessuhorni sem kom út í morgun.