14. febrúar. 2014 09:24
Snæfellingar sýndu það í gærkveldi, þegar ÍR kom í heimsókn í Hólminn, að þeir eru tilbúnir að klifra upp töfluna í Dominosdeildinni. Sigur þeirra á ÍR-ingum var öruggur, 94:79, en Breiðhyltingar hafa einmitt verið í ham á nýju ári. Leikurinn var engu að síður sveiflukenndur, en með sigrinum er Snæfell komið upp að hlið Stjörnumanna í 7.-8. sæti deildarinnar. Einungis tvö stig eru upp í Hauka og Þór Þorlákshöfn í sætunum fyrir ofan.
Leikurinn var jafn á fyrstu mínútunum en Snæfell var kominn með ágæta forustu í hálfleik, 23:15. Fljótlega í öðrum leikhluta skildu leiðir með liðunum þegar heimamenn voru öflugir bæði í vörn og sókn. Staðan í hálfleik var 50:28. Í byrjun seinni hálfleiks leit út fyrir að Snæfell mundi landa þægilegum sigri, en þegar leið að lokum þriðja leikhluta fóru gestirnir að láta að sér kveða. Munurinn var kominn niður í átta stig þegar þriðja leikhluta lauk og í byrjun lokafjórðungsins saumuðu ÍR-ingar verulega að Snæfellingum. Minnstur varð munurinn þrjú stig, 72:69, en þá sögðu heimamenn hingað og ekki lengra og skiluðu öruggum sigri í höfn.
Hjá Snæfelli var sigahæstur Travis Cohn III með 28 stig og 8 fráköst, Sigurður Á Þorvaldsson var með 26 stig og 8 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 14 stig og 7 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 9 stig, Kristján Pétur Andrésson 7, Sveinn Arnar Davíðsson 4 og 7 fráköst, Stefán Karel Torfason 4 stig og Finnur Atli Magnússon 2.
Í næstu umferð sækja Snæfellingar Hauka heim í Hafnarfjörðinn nk. fimmtudagskvöld.