18. febrúar. 2014 01:31
Hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson leituðu í vikunni að loðnugöngum vestur af landinu, á grunnslóð og í köntunum út af Vestfjörðum og norður um Grænlandssund. Ekkert fannst. Síðustu daga hefur Árni Friðriksson verið við mælingar á loðnu út af suðurströndinni. Skipið hefur fundið loðnu á svæðinu frá Þorlákshöfn austur að Kötlutanga auk smá hrafls við Vestmannaeyjar. Einnig hefur frést af loðnu við Grindavík. Hafrannsóknastofnun verst allra frétta af því hve hugsanlega sé mikið af loðnu við landið þar sem mælingar standi enn yfir. Loðnuskipin hafa verið við veiðar suður af landinu og landað í höfnum austanlands. Frekar rólegt hefur verið yfir veiðunum og kappkostað að afla til frystingar þar sem kvótinn er lítill og mikið verðfall hefur orðið á fiskimjöli og lýsi á erlendum mörkuðum. Á Akranesi bíða menn tilbúnir í óþreyju eftir að hrognataka hefjist hjá HB Granda.