20. febrúar. 2014 08:01
Velta menningar- og miðaldasetursins Snorrastofu í Reykholti fór á síðasta rekstrarári yfir 100 milljónir króna og er það í fyrsta skipti í sögu stofnunarinnar sem það gerist. Veltuaukningin nemur um 23 milljónum króna eða 35% frá árinu 2012 og munar einna mest um tekjuaukningu vegna þjónustu við ferðamenn og aukin framlög ýmissa sjóða vegna einstakra verkefna, bæði vegna rannsókna og uppbyggingar fyrir móttöku ferðamanna. Að sögn Bergs Þorgeirssonar forstöðumanns er þetta til marks um hve starfsemi Snorrastofu er orðin umfangsmikil nú á átjánda starfsári sínu. Um leið undirstriki þetta hversu þýðingarmikill staður Reykholt er fyrir allt Vesturland, ekki síst með tilliti til ferðaþjónustu. „Samkvæmt talningu sem við höfum látið framkvæma voru heimsóknir í Reykholt um 170.000 árið 2012. Við teljum að árið 2013 hafi um 30.000 komið inn til okkar í Snorrastofu og Reykholtskirkju ýmist til að nýta sér þjónustu verslunar og upplýsingamiðstöðvar, sækja viðburði eða fara á sýninguna um Snorra Sturluson. Hana sóttu t.d. um 13.000 manns í fyrra sem var vonum framar,“ segir Bergur. Hann segir jafnframt að gestir séu ánægðir með sýninguna.