19. febrúar. 2014 12:44
Þrátt fyrir að fyrirsögnina megi misskilja er þó hér um jákvæða frétt að ræða. Met þátttaka er í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins, heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ. Í tilkynningu frá ÍSÍ segir að nú hafi 463 vinnustaðir skráð 13.446 liðsmenn til leiks. Góð þátttaka er einnig í grunnskólakeppninni en þar hafa 45 skólar skráð 7.444 nemendur til leiks. Landsmenn eru hvattir til að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er. Í ráðleggingum Embætti landlæknis um hreyfingu er börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag.
Lífshlaupið hófst 5. febrúar, grunnskólakeppninni lauk 18. febrúar, en vinnustaðakeppninni lýkur í næstu viku, 25. febrúar. Enn er hægt að skrá vinnustaði og liðsmenn til leiks. Í gegnum tíðina hefur vinnustaðakeppnin skapað mikla stemningu inn á vinnustöðum og eru margir vinnustaðir sem nota verkefnið til þess að efla andann á vinnustaðnum samhliða þess að auka hreyfingu starfsmanna. Að vinnustaðakeppninni lokinni geta einstaklingar haldið áfram að skrá niður sína hreyfingu og taka þeir þá þátt í einstaklingskeppninni sem er í gangi allt árið. Þar geta einstaklingar unnið til bronsmerkis með að hreyfa sig í 42 daga, silfurmerki með að hreyfa sig í 156 daga, gullmerki með að hreyfa sig í 252 daga og platínumerki með að hreyfa sig 335 daga.
Á vefnum geta einstaklingar einnig skráð niður matardagbók og aðrar upplýsingar sem tengjast heilsufari. Lífhlaupið er góð leið til að halda utanum heilsu sína og hreyfingu.
Skelltu þér inn á www.lifshlaupid.is og skráðu þig til leiks.