21. febrúar. 2014 08:01
Ísgangagerð í vestanverðum Langjökli er enn ekki hafin en væntingar standa til að framkvæmdir hefjist innan tíðar. Meðal þeirra sem koma að verkinu eru félagar í björgunarsveitinni Ok í Borgarfirði en framkvæmdum er stýrt af EFLU verkfræðistofu í Reykjavík fyrir hönd félagsins Ísgöng ehf. Að sögn Reynis Sævarssonar verkfræðings og fagstjóra hjá EFLU sem haft hefur umsjón með verkefninu var tekin ákvörðun um að eiga samráð við forsætisráðuneytið áður en gröftur færi í gang. Ástæðan væru þjóðlendukröfur stjórnvalda sem birtar voru í desember. Reynir segir að félagið sé þó í fullum rétti að byrja framkvæmdir en vilji þó hafa allt á hreinu til að rétt verði staðið að málum áður en framkvæmdir hefjast. Auk þess er enn í gangi vinna við að klára smíði búnaðarins sem notaður verður við gröftinn. Reynir bjóst við að forsætisráðuneytið lyki umfjöllun um málið í lok mánaðarins.
Skessuhorn greindi frá áformunum í lok síðasta árs. Þá greindi Reynir m.a. frá því að framkvæmdir myndi byrja fljótlega í upphafi þessa árs. Ísgöngin eru hugsuð fyrir ferðamenn og koma til með að verða á 30 metra dýpi undir yfirborði Langjökuls. Stefnt er að því að útbúa jöklasýningu í göngunum þar sem gestir geta fræðst um íslensku jöklana og áhrif hlýnunar jarðar á þá. Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að göngin verði tilbúinn árið 2015. Það er fjárfestingasjóðurinn ITF 1 í umsjón Landsbréfa, dótturfélags Landsbankans, sem á Ísgöng ehf. Hluthafar eru Icelandair Group, Landsbankinn og nokkrir lífeyrissjóðir, en sjóðurinn var stofnaður með það að markmiði að fjárfesta í uppbyggingu í íslenskri ferðaþjónustu með áherslu á að búa til nýja ferðamannastaði.