23. febrúar. 2014 12:48
Hrognataka hófst í fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi á föstudaginn og frysting í gær. Um hundrað manns vinna við vinnsluna og frystingu meðan hrognatakan stendur yfir, en hversu lengi fer eftir tíðarfari, kvóta og hvenær loðnan hrygnir. Á föstudaginn var byrjað að vinna úr um þúsund tonna afla Lundeyjar NS sem fékkst á Faxaflóa í tveimur köstum á fimmtudaginn. Faxi RE er nú við bryggju á Skaganum, en hann kom með 1400 tonn í gær, og Ingunn AK er á siglingu fyrir minni Breiðafjaðar. Reynt er að láta skipin veiða þannig að vinnsla geti staðið samfleytt yfir meðan gefur. Skipin hafa nú verið að fá loðnuna út af Malarrifi. Gunnar Hermannsson hefur nú sem fyrr umsjón með vinnslunni á Akranesi. Á vef fyrirtækisins segir Gunnar að hrognin líti mjög vel út. Hrognafyllingin í fyrsta farminum var um 23% og þroski hrognanna um 70 til 75%. „Það er því ekki eftir neinu að bíða með að hefja frystingu,“ sagði Gunnar.