24. febrúar. 2014 07:01
Keppni í A-riðli Faxaflóamótsins í knattspyrnu lauk sl. fimmtudagskvöld þegar Skagakonur tóku á móti Haukum í Akraneshöllinni. ÍA vann 5:3 og náði með sigrinum 3. sætinu í riðlinum. FH vann riðilinn með talsverðum yfirburðum, hlaut 12 stig, en Breiðablik, ÍA og Selfoss fengu hvert um sig sex stig. Haukar urðu neðstir án stiga.
Skagakonur höfðu nokkra yfirburði í fyrri hálfleik á móti Haukunum, skoruðu þá þrjú mörk og bætti við því fjórða í byrjun seinni hálfleiks. Haukar gáfust ekki upp, náðu að skora þrívegis og laga stöðuna í 3:4 áður en Skagastúlkur bættu við fimmta markinu undir lok leiks. Eyrún Eiðsdóttir skoraði þrennu fyrir ÍA og Heiðrún Sara Guðmundsdóttir tvö mörk.