28. febrúar. 2014 04:05
Verkalýðsfélag Akraness stóð fyrir tveimur fundum með starfsmönnum Elkem Ísland í Gamla Kaupfélaginu á Akranesi sl. fimmtudag, en 90% iðnverkamanna eru félagar í VLFA og hafa verið í yfirvinnubanni frá sunnudeginum 23. febrúar. Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA segir mikla samstöðu hafa ríkt á fundunum. Samstaða sé meðal starfsmanna að ef kjaraviðræðurnar í byrjun næstu viku skili ekki árangri, fyrirtækið og SA komi ekki verulega til móts við kröfur starfsmanna, þá verði kosið um allsherjarverkfall hjá Elkem Ísland á Grundartanga um miðja næstu viku.
Vilhjálmur segir að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins hafi haft samband og viðrað þá hugmynd hvort félagið vildi skoða að gera samning til lengri tíma við Elkem en gerður var á hinum almenna vinnumarkaði. Snerust þær hugmyndir þá um 2-3 ára samning. Það sé í anda þess sem félagið sjálft hefur meðal annars viðrað bæði við forsvarsmenn fyrirtækisins og við Samtök atvinnulífsins. „Þannig að það hefur alltaf legið fyrir að þessa leið væri félagið til í að skoða, enda mun slík leið verða þess valdandi að félagið er ekki þátttakandi í þeirri samræmdu launastefnu sem samið hefur verið um. Þessi ákvörðun SA varð þess valdandi að starfsmenn samþykktu að fresta því í nokkra daga að láta kjósa um verkfall í fyrirtækinu og vilja sjá hvort kjaraviðræðurnar í byrjun næstu viku skili einhverjum árangri eður ei. Krafa starfsmanna er alveg skýr,“ segir Vilhjálmur. Sem fyrr leggur hann áherslu á sérkjarasamninga fyrir starfsmenn í stóriðjunni á Grundartanga.