01. apríl. 2014 11:06
Þann 20. mars síðastliðinn hélt vaskur hópur karatekrakka frá Íslandi til Malmö í Svíþjóð til að keppa á Opna sænska karatemótinu. Fjórir krakkar frá Karatefélagi Akraness voru með í för en auk þeirra voru íslenskir keppendur frá Breiðabliki, Fylki og Víkingi. Mikill eftirvænting var í hópnum fyrir keppnisferðinni en söfnun fyrir henni stóð yfir frá því síðasta haust. Daginn fyrir mótið var sameiginleg æfing í Malmö en keppnin sjálf var á laugardeginum og var keppt bæði í kata og kumite, barna, unglinga og fullorðinna.
Keppendur frá Akranesi voru þau Eiríkur Snjólfsson, Guðbjörg Birta Sigurðardóttir, Hilmar Andri Ásdísarson og Kristrún Bára Guðjónsdóttir. Eydís Líndal Finnbogadóttir var þjálfari hópsins. Þetta var fyrsta mót þessara krakka utan landssteina og upplifunin mikil. Frábær árangur náðist hjá hópnum en þau komu öll heim með bronsverðlaun.