06. apríl. 2014 01:21
Gríðarleg eftirvænting var í Ólafsvík vegna landsleiks Íslands og Austurríkis sem fram fór í íþróttahúsinu í gær. HSÍ var með æfingar um morguninn fyrir rúmlega 100 börn sem kynntust göldrum handboltans. Sumir áhorfendur sem mættu á sjálfan landsleikinn sögðu að sannkölluð þjóðhátíð ríkti í Ólafsvík, þvílík væri stemningin. Þótt handbolti sé ekki stundaður í Snæfellsbæ að staðaldri mættu yfir 600 til þess að sjá leik Íslands og Austurríkis. En fyrsti landsleikur sem haldinn var í Ólafsvík var fór fram 1. nóvember árið 2003 þar sem íslenska landsliðið mætti því pólska.
Sigrún Ólafsdóttir, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Snæfellsbæjar, sagði í samtali við Skessuhorn að það hefði verið gaman að fá þessi landslið til Ólafsvíkur og hefðu margir sjálfboðaliðar unnið gott starf. „Allur aðgangseyrir rann í barna- og unglingastarf Snæfellsbæjar. Björn Haraldur Hilmarsson og Pétur Steinar Jóhannsson hafa verið aðalmenn i að koma þessu verkefni í kring og að fá landsliðin til Ólafsvíkur. Sáu þeir um að safna styrkjum þannig að allur aðgangseyrir gæti runnið í íþróttastarfið,“ sagði Sigrún.
Fyrir leikinn afhenti Guðmundur B Ólafsson formaður HSÍ Pétri Steinari innrammaða treyju sem Guðjón Valur keppi í á Evrópumótinu. Treyjan er árituð af öllum landsliðsmönnum og verður hún hengd upp í íþróttahúsinu.
Fleiri myndir í Skessuhorni næstu viku.