10. apríl. 2014 10:01
Létt og góð stemning var á fjórðu Mýraeldahátíðinni sem fram fór í Lyngbrekku um síðustu helgi. Í tilefni hátíðarinnar var efnt til vélasýningar og kynningar á ýmsum landbúnaðartengdum vörum milli klukkan 13-17 á laugardeginum og lögðu fjölmargir gestir leið sína að Lyngbrekku til að skoða hana. Svangir gestir komu ekki að tómum kofanum því boðið var upp á grillað nautakjöt frá Sláturhúsinu á Hellu, kjötsúpu frá Félagi sauðfjárbænda í Borgarfirði og kaffiveitingar frá kvenfélaginu á Mýrunum. Fjölmargir gestir glímdu síðan við Mýranautið sem náði með miklum tilburðum að hrista af sér hvern áskorandann á fætur öðrum. Um kvöldið fór loks fram kvöldvaka þar sem boðið var upp á fjölbreytt skemmtiatriði. Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar sló síðan botninn í hátíðina með balli í lok kvöldvökunnar sem stóð fram á rauða nótt.