18. apríl. 2014 03:01
Neta- og dragnótabáturinn Magnús SH 205 frá Hellissandi hefur nú stundað netaveiðar við Snæfellsnes um rúmlega tveggja vikna skeið eftir að báturinn kom úr viðamiklum breytingum hjá Skipasmíðastöð Þorgeirs & Ellerts á Akranesi. Sigurður V. Sigurðsson skipstjóri og útgerðamaður segist himinlifandi með Magnús SH eftir endurnýjunina. „Báturinn er alveg meiriháttar. Það eru frábærar hreyfingar í honum eftir breytingarnar. Hann er svo skemmtilega rólegur og mjúkur. Þetta er mikil breyting til batnaðar. Þeir eiga heiður skilinn fyrir þetta hjá Þorgeir & Ellert. Allt virkar fullkomlega. Þeir hafa skilað frábærri vinnu,“ sagði Sigurður nýstiginn á land í Rifi eftir dagróður í liðinni viku.