19. apríl. 2014 08:01
Nokkrir starfsmenn Faxaflóahafna sigldu síðastliðinn fimmtudag frá Akranesi í Borgarnes. Tilgangur siglingar þeirra var að kanna siglingaleiðina að Borgarneshöfn, en til þess notuðu þeir lóðsbátinn Þjót sem smíðaður var á Akranesi árið 1991. Þrátt fyrir norðvestan stinning framan af morgni gekk siglingin í Borgarnes vel og tók liðlega tvær klukkustundir. Á hafnarbakkanum tók Páll Brynjarsson sveitarstjóri á móti áhöfn Þjóts og í framhaldi var skipasmíðaaðstaða Þorsteins Mána skoðuð. Að því loknu var haldið aftur á Akranes í rjómablíðu og þangað komið síðla dags, en Þjótur hélt síðan áfram og aðstoðaði flutningaskipið Wilson Sky sem hafði lokið við að landa áburði á Akranesi og beið brottfarar.